Sannkölluð djassveisla í Suðurnesjabæ
Jazzfjelag Suðurnesjabæjar slær ekki slöku við í tónleikahaldi og á síðustu tónleikum, sem haldnir voru þann 22. júlí, var það Tríó Kristjönu Stefáns sem gladdi gesti sem voru fjölmargir enda hefur frábært tónlistarfólk verið að koma fram á tónleikum Jazzfjelagsins og slíkt spyrst út, ekki aðeins til þeirra sem vilja koma og sjá heldur einnig til listamanna sem eru mjög áhugasamir að fá að koma fram á uppákomum félagsins og hefur hróður þess borist út fyrir landsteinana.
Tónleikagestir urðu ekki fyrir vonbrigðum með dagskrána sem tríóð bauð upp á en meðal efnis voru lög eftir Bubba Morthens, Björgvin Halldórs, Ragga Bjarna, Nýdönsk, Stuðmenn og marga fleiri. Lögin voru í léttdjössuðum útsetningum tríósins sem er skipað þeim Kristjönu Stefánsdóttir sem sá um sönginn, gítarleikaranum Ómari Guðjónssyni, sem einnig lék á fetilgítar, og kontrabassaleikaranum Þorgrími Jónssyni.
Að vanda var aðgangur ókeypis á tónleika Jazzfjelagsins sem er styrkt af Sóknaráætlun Suðurnesja og Suðurnesjabæ.
Ekki slegið slöku við
Jazzfjelag Suðurnesjabæjar slær ekkert af í tónleikahaldi og næsti konsert er áætlaður í lok mánaðar, verða haldnir þann 26. ágúst, á sínum vanalega stað, Bókasafni Sandgerðis.
Það er Íslendingurinn Oddrún Lilja sem verður með tónleika en hún hefur alist upp í Noregi og er þekkt sem gítarleikarinn í Bugge Wesseltofts „New Conception of Jazz“, í Frode Haltlis „Avant folk“ og í „Moksha“
Oddrún Lilja hefur sent frá sér sína fyrstu plötu undir eigin nafni: „LILJA: Marble“. Platan fékk sex (af sex mögulegum) í tónlistarumfjöllun í Dagsavisen og var á lista yfir bestu plötur ársins í tónlistarumfjöllun í Klassekampen, auk þess sem hún var efst á lista yfir bestu djassplötur ársins í Dagsavisen. Platan var líka tilnefnd sem plötuútgáfa ársins í Subject, þar sem hún var talin myndi standa upp úr „Marble“ í norskri djasssögu.
Tónlist Oddrúnar Lilju er innblásin af ferðum hennar víða um heim, þar sem hún hefur spilað með tónlistarfólki frá þeim stöðum sem hún hefur verið á, staðtengda tónlist. Meðal annars hefur hún spilað með ragatónlistarfólki á Indlandi, gnawatónlistarfólki í Marokkó, sirkuslistamönnum í Eþiópíu og palestínsku tónlistarfólki í flóttamannabúðum í Libanon. Hún hefur samið nýja tónlist, innblásna af þessari deiglu tónlistar. Öll lögin ber nafn þeirra borgar, sem hefur gefið innblástur þess.
Án efa áhugaverðir tónleikar framundan en Oddrúnar Lilju kemur fram ásamt fjölþjóðlega skipaðri sveit gestatónlistarmanna. Auk hennar leika á tónleikunum þau Sanne Rambags, aðalsöngkona (Holland), Sunna Gunnlaugsdóttir, píanó (Ísland), Jo Skaansar, bassi og söngur (Noregur), og Erik Qvick, trommur (Ísland).
Hér að neðan er myndskeið frá tónleikum Tríós Kristjönu Stefáns þar sem þau flytja lagið Don’t try to fool me eftir Jóhann G. Jóhannsson.